Árlegir viðburðir

Sími: 433 6900

Ertu með ábendingu um árlegan viðburð sem á heima í upptalningunni hér að neðan?

Heimir Berg, markaðs- og upplýsingafulltrúi Snæfellsbæjar, hefur umsjón með heimasíðunni og tekur á móti ábendingum í ofangreint netfang.

Hér er hægt að sjá í tímaröð alla þá skemmtilegu árlegu viðburði sem haldnir eru í Snæfellsbæ.

Þrettándinn í Ólafsvík

Á Þrettándanum sameinast íbúar við Pakkhúsið í Ólafsvík og ganga í fylgd álfadrottningar, álfakonungs, álfameyja, púka og mennskra manna að brennu við Klif þar sem jólin eru kvödd. Að brennu lokinni er flugeldasýning.

Sú skemmtilega hefð hefur jafnframt myndast í Ólafsvík að börn ganga í hús og sníkja gott í gogginn að lokinni flugeldasýningu.

Þorrablót

Þorrablót eru haldin í Ólafsvík, á Hellissandi og í Staðarsveit.

Sjómannadagur

Sjómannadagurinn í Snæfellsbæ á sér merkilega sögu og er einn af stóru menningarviðburðunum í bænum ár hvert. Fjölbreytt dagskrá er fyrir gesti og gangandi á hafnarsvæðum Snæfellsbæjar og sjómenn heiðraðir fyrir störf til sjós. Hátíðarhöldin eru skipulögð af sjómönnum og eru haldin á hafnarsvæðinu í Ólafsvík og Rifi til skiptis.

Sjómannadagur er fyrsti sunnudagur í júní, nema ef hvítasunnu ber upp á þann dag, þá er hann næsti sunnudagur þar á eftir.

17. júní

Þjóðhátíðardagurinn 17. júní er haldinn hátíðlegur í Snæfellsbæ og boðið upp á fjölbreytta hátíðar- og skemmtidagskrá í Sjómannagarðinum í Ólafsvík. 

Snæfellsjökulshlaupið

Undir lok júnímánaðar fyllist bærinn af þróttmiklum hlaupurum sem taka þátt í Snæfellelsjökulshlaupinu. Hlaupið er um 22 km leið í einstakri náttúrufegurð; frá Arnarstapa, yfir Jökulhálsinn og til Ólafsvíkur.

Snæfellsjökulshlaupið hefur vakið mikla athygli frá því það var haldið fyrst og er hlaðið viðurkenningum. Það er jafnan talað um það sem eitt af skemmtilegri hlaupum landsins og hefur það verið kosið eitt af þremur bestu utanvegahlaupum landsins.

Réttir

Það er líf og fjör á bænum þegar tekur að hausta og kominn tími á göngur og réttir hjá sauðfjárbændum í Snæfellsbæ.

Jólaþorp Snæfellsbæjar

Lifandi tónlist og ilmur af ristuðum möndlum í loftinu, jólaglögg í glasinu og vinir og kunningjar á hverju strái. Jólaþorp Snæfellsbæjar hefur slegið í gegn hjá íbúum og gestum sem gera sér glaðan dag í aðdraganda jóla.

Getum við bætt efni þessarar síðu?